Svo lengi sem mannveran hefur skapað list þá hefur hún í listinni staðsett sig í fjarlægð frá öðrum verum. Dýr eða ‘aðrar’ verur hafa verið notaðar til þessa að gefa okkur mönnunum tækifæri til að endurspegla hluta af okkur sjálfum eins og t.d. guðseðli, ákveðin hegðunarmunstur og margbrotnar tilfinningar. Þættir sem við eigum erfitt með að sýna sem hluta af okkur sjálfum. Með svokölluðum rannsóknaraðferðum myndlistarsköpunarinnar og með ímyndunaraflið að vopni setja listamenn nú fram hugmyndir um vistvæna framtíð, þar sem ný afstaða til manna og dýra er sett í forgrunn. Í námskeiðinu verða spurningar ræddar varðandi þekkingarfræðilegan bakgrunn hugtaka eins og landslag, náttúra, öræfi, út frá miðlægum skilningi mannsins. Rætt verður hvort listamenn séu með þessu að setja fram nýjar rannsóknaraðferðir til að hugsa um breytta stöðu mannsins.

Í námskeiðinu verður hlutverk dýra í mannheimum og samband þeirra við manninn skoðað í listaverkum, hönnun, og kvikmyndum, í þeim tilgangi að skilja hvernig gagnrýnin hugsun birtist í verkum samtímalistamanna/hönnuða/og activista, eins og: The Harrison’s, Snæbjörnsdóttir/Wilson, Art Orienté Objet, Natalie Jeremijenko og kvikmyndagerðarmannanna Werner Herzog (Grizzly Man), Hegedus & Pennebaker (Unlocking the Cage), Arne Sucksdorff & Marina Zurkow (A Divided World), og Liz Marshall (The Ghosts in Our Machine). Í verkum þeirra gæti leynst lykillinn að vistvænni hugsun og hugmyndir um sjálfbæra framtíð. Námskeiðið er þverfaglegt með tilliti til þeirra nemenda sem vilja kynnast þverfaglegum rannsóknaraðferðum í myndlist, listfræði, kvikmyndum, og menningarfræðurm. Námskeiðið mun því höfða til nemenda í listfræði, vistfræði, fagurfræði og þekkingarfræði.