Námskeiðið fjallar um hvernig sjálfsmyndir og ímyndir af Íslendingum og öðrum þjóðum hafa mótast og hvernig þær vinna með alþýðuhefðir á hverjum stað. Við skoðum íslenskan veruleika og ímyndir í samanburði við reynslu ýmissa grannþjóða og rannsökum hvernig sögur, siðir og minjar skapa þjóðir og móta þær, frá þjóðminjasöfnum til þorrablóta í London; og frá viskídrykkju í Skotlandi til víkingasagna á Norðurlöndum, með viðkomu á Up Helly Aa á Hjaltlandseyjum og Ólafsvöku í Færeyjum; við skoðum hönnunarsýningu á Grænlandi, norrænar byggðir í Vesturheimi og sendum myndir af öllu saman á samfélagsmiðla.
Okkur ber niður í kvikmyndum og tónlist, hátíðum, leikjum og skrautsýningum stjórnmálanna. Sérstaklega verður greint hvernig þjóðlegar ímyndir sameina og sundra hópum fólks. Í því samhengi verður horft til kvenna og karla, búsetu, fólksflutninga fyrr og síðar (innfluttra, brottfluttra, heimfluttra), kynþáttahyggju og kynhneigðar. Við rannsökum þessar ímyndir sem hreyfiafl og hugsjón, auðlindir og þrætuepli og skoðum hvernig þeim er beitt í margvíslegu skyni af ólíku fólki á ólíkum stöðum, jafnt af þjóðernispopúlistum sem græningjum, ríkisstofnunum og bönkum, fræðafólki og nemendum.
Hæfniviðmið:
1. Þekking og skilningur
Að námskeiði loknu býr nemandi yfir þekkingu á fræðasviði námskeiðsins. Í því felst að nemandi:
1.1. hafi glöggan skilning á fræðilegri umræðu um samband ímynda, alþýðuhefða og þjóðernismótunar
1.2. hafi þekkingu á hvernig unnið hefur verið með alþýðuhefðir í mótun þjóðernisímynda á meðal Íslendinga og grannþjóða
1.3. geti lýst viðfangsefnum, aðferðum og niðurstöðum lykilfræðimanna sem fjallað hafa um alþýðuhefðir og þjóðernisímyndir
2. Leikni
Að námskeiði loknu getur nemandi beitt aðferðum og verklagi á fræðasviði námskeiðsins. Í því felst að nemandi:
2.1. geti notað þekkingu sína til að fjalla um þjóðfræði og ímyndir
2.2. geti beitt fræðilegum sjónarhornum á sviði þjóðfræði til að rökræða samband ímynda og alþýðuhefða
3. Hæfni
Að námskeiði loknu geti nemandi hagnýtt sér þekkingu sína og leikni í starfi og eða frekara námi: Í því felst að nemandi:
3.1. sé fær um að útskýra við hvað sé átt þegar talað er um ímyndir í þjóðfræðilegu samhengi.
3.2. geti í skriflegri greinargerð nýtt þá fræðilegu orðræðu sem kynnt er í námskeiðinu til að greina samspil alþýðuhefða á Íslandi og í grannríkjum
3.3. geti með hjálp dæma um sögur, siði og minjar varpað ljósi á síbreytilega mótun sjálfsmynda og ímynda ólíkra hópa í sögu og samtíð
- Lärare: Valdimar Tryggvi Hafstein
- Lärare: Kristín Lilja Linnet
- Lärare: Aðalheiður Eyvör Pálsdóttir
- Lärare: Kristinn Helgi Magnússon Schram