Í námskeiðinu er kastljósinu beint að hinsegin viðfangsefnum í íslenskum bókmenntum fyrr og síðar, svo sem samkynja ástum og löngunum, ergi, hómóerótík og rómantískri vináttu, kyngervum, kynusla og kynlífi, hinsegin unglingum og foreldrum, samkynhneigðum, tvíkynhneigðum og trans sögupersónum. Fjallað er um hinsegin fræði, helstu kenningar sem kenndar eru við fræðigreinina og sérstaklega hugað að því hvað felst í hinsegin lestri og greiningu. Bókmenntatextarnir eru enn fremur settir í sögu- og samfélagslegt samhengi og stiklað á stóru í hinsegin sögu hér á landi og erlendis.