Almenn lýsing Í námskeiðinu munum við spyrja um eðli þekkingar og glíma við ýmsar gátur sem tengjast þekkingu. Af hverju skiptir þekking máli? Er skilningur mikilvægari en þekking? Hver er munurinn á þekkingu og sannri skoðun? Hvers konar rökstuðning þarf til að breyta sannri skoðun í þekkingu? Getum við rannsakað þekkingu eins og meltingu, þ.e. með náttúruvísindalegum aðferðum, eða getum við bara rannsakað hana innan frá, þ.e. með því að skoða okkar eigin vitund? Getum við treyst skoðunum annarra? Hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að fólk njóti sannmælis, óháð kyni, kynþætti, aldri, kynhneigð o.s.frv.? Við lesum fyrst og fremst texta frá 20. og 21. öld og nemendur þjálfast í að beita aðferðafræði rökgreiningarheimspeki við að lesa og rýna heimspekilega texta.

Hæfniviðmið Við lok námskeiðs eiga nemendur að:

  • Hafa skilning á helstu kenningum þekkingarfræði 20. og 21. aldar og geta útskýrt þær í stuttu máli.
  • Geta greint þekkingarfræðileg vandamál út frá dæmum og lagt til lausnir á þeim.
  • Geta lesið og skilið flókna heimspekitexta um þekkingarfræðileg vandamál á íslensku og ensku og  geta greint innihald þeirra í ræðu og riti.
  • Geta skrifað skýran heimspekilegan texta um þekkingarfræðileg efni.

Forkröfur eru engar en gert er ráð fyrir að nemendur hafi þekkingu á sögu vestrænnar heimspeki, sérstaklega fornaldarheimspeki og nýaldarheimspeki, og lágmarksþekkingu í rökfræði.