Lýsing í kennsluskrá:  Kynning á hagrænni landafræði; viðfangsefnum hennar, helstu kenningum og aðferðafræði. Fjallað um efnahagslegt og pólitískt vald og skiptingu gæða. Ríkjaskipting heimsins skoðuð í hagrænu ljósi. Fjallað verður um helstu tegundir hagkerfa, kenningar um hagþróun, sögulega framvindu í ólíkum heimshlutum, uppbyggingu markaðshagkerfis og áhrif þess á önnur kerfi, helstu framleiðsluþætti og kenningar um staðsetningu frumvinnslu, úrvinnslu og þjónustu.

Hæfniviðmið:  Í lok námskeiðs er ætlast til að nemandi geti:

Lýst í grófum dráttum helstu ferlum sem tengjast hnattvæðingu efnahagslífsins;

Gert grein fyrir helstu aðilum sem móta leikreglur heimshagkerfisins;

Lýst mismunandi tengingu svæða og landa við hnattvæðingarferli;

Greint á milli ólíkrar afstöðu til hnattvæðingar og gert grein fyrir því á hverju slík Afstaða er byggð;

Gefið dæmi um breytingar sem orðið hafa í ólíkum atvinnugreinum með Hnattvæðingu;

Útskýrt áhrif hnattvæðingar efnahagslífs á umhverfi og náttúru með dæmum;

Tekið ígrundaða afstöðu til hnattvæðingar, sem byggð er á gagnrýnni hugsun.

 

Eins og marka má af þessu er áherslan í námskeiðinu á heiminn sem samtengda heild, fremur en einstök ríki, svæði eða staði, þótt dæmi verði tekin frá mörgum og mismunandi svæðum. Rauði þráðurinn er hnattvæðingin eða heimsvæðingin svonefnda sem svo mjög hefur verið til umræðu síðustu árin; forsendur hennar og áhrif á efnahagsleg örlög staða og svæða. Ekki er sérstaklega fjallað um Ísland eða íslenskar aðstæður, en sannarlega má sjá tengsl milli íslenskra aðstæðna og aukinnar hnattvæðingar og eru nemendur eindregið hvattir til að hugsa um efnið með tilliti til þessa. Leitað verður svara við spurningum á borð við þessar:

 

Að hve miklu leyti er nú hægt að tala um eitt samtengt heimshagkerfi?

Hvenær varð þetta heimshagkerfi til og af hvaða sögulegu rótum er það sprottið?

Af hverju eru efnahagslegar breytingar í veröldinni svo örar nú á tímum?

Hvernig er eðli framleiðslu og neyslu að breytast um þessar mundir?

Hvaða aðilar leika aðalhlutverkin í heimshagkerfinu?

Hvers vegna eru tiltölulega fá svæði og borgir orðin svo efnahagslega mikilvæg á heimsvísu?

Hvaða þátt eiga aukin ferðalög og aðrar breytingar á samskiptamynstri í hnattvæðingarferlum?

Hvað annað felst í hnattvæðingu heldur en efnahagslegar breytingar?

Hvaða áhrif hefur hnattvæðingin haft í ólíkum heimshlutum og löndum?

Hvað verður um staðbundin sérkenni á tímum hnattvæðingar?

 

Fyrirkomulag náms: Fyrirlestrar eru á þriðjudögum, kl.08:20–9:50 að öllum líkindum í stofu N-131. Umræðutímarnir fara fram á föstudagmorgum kl 10.00 – 11:30 að öllum líkindum í stofu N. 129. Í umræðutímunum gefst kostur á að dýpka skilning á þeim atriðum sem fjallað hefur verið um í fyrirlestri vikunnar. Þeir gegna mjög mikilvægu hlutverki í námskeiðinu – sjá nánar um námsmat.

 

Lesefni:  Ein aðalkennslubók verður notuð:

Dicken, P. (2015). Global Shift: Mapping the Changing Contours of the World Economy

(7. útg.). London: SAGE.

 

Þessi vandaða bók varpar ljósi á orsakir, eðli og afleiðingar hnattvæðingar með fjölmörgum dæmum frá ólíkum heimshlutum. Fyrstu ellefu kaflar hennar fjalla almennt um ýmsar hliðar hnattvæðingar. Þetta efni verður uppistaða fyrirlestranna. Síðustu sex kaflar bókarinnar skoða áhrif hnattvæðingar í tilteknum geirum efnahagslífsins. Ekki verður farið kerfisbundið yfir þessa kafla í fyrirlestrum, en þeir verða hins vegar lagðir til grundvallar hópverkefnum nemenda (sjá lýsingu hér á eftir).

 

Forsenda þess að fyrirlestrar komi að gagni er að nemendur komi lesnir í tíma! Þú skalt því fylgja lestraráætluninni sem sett er fram í töflunni hér á eftir. Einnig skal bent á að bókinni fylgir margvíslegt stoðefni, þar á meðal myndbönd, ítarleg umfjöllun um tiltekin dæmi, spurningar og ábendingar um frekara lesefni. Þetta má nálgast á vefnum: https://study.sagepub.com/dicken7e/student-resources

 

Auk bókarinnar verður lagt fram aukalesefni um tiltekna þætti námskeiðsins, sem ekki er fjallað um í kennslubókinni. Áhersla er lögð á að nemendur lesi jafnt og þétt og sýni sjálfstæði í að leita að frekara lesefni sem tengist viðfangsefninu.

 

Glærur og annað efni viðkomandi námskeiðinu verður sett á Uglu. Síðast en ekki síst verða allar tilkynningar birtar þar, t.d. um verkefnaskil. Þú þarft því að fylgjast reglulega með námskeiðsvefnum.