Í þessu námskeiði verður fjallað um tengsl bókmennta og safna. Efni námskeiðsins er undirbyggt með fræðilegri umfjöllun um rithöfundasöfn í alþjóðlegu samhengi. Megináhersla námskeiðsins er að skoða samþættingu íslensks bókmenntaarfs við safnastarf og hvernig samband þessara tveggja greina kristallast m.a. á rithöfundasöfnum. Uppbygging rithöfundasafna verður kynnt sem og þær aðferðir sem notaðar hafa verið til að gera þeim skil í safnaumhverfi. Þá verður velt upp tengslum rithöfundasafna og menningartengdrar ferðaþjónustu og gagnrýnu ljósi beint að rithöfundasöfnum og samþættingu kynjasjónarmiða.