Stafræn farsímakerfi komu á sjónarsviðið snemma á 10. áratugnum. Segja má
að þau hafi valdið þjóðfélagslegri byltingu sem fólst í því að hægt er að ná
sambandi við fólk hvar og hvenær sem er. Tilkoma snjallsíma og háhraða
farsímakerfa hefur jafnframt stóraukið möguleika fólks til að afla sér
upplýsinga á texta-, hljóð- eða myndformi, nærri hvar og hvenær sem er. Wi-Fi
hefur einnig þróast hratt undanfarin ár og vegna þess nýtur fólk „frelsis“
þráðlausra fjarskipta á heimilum og í fyrirtækjum. Þráðlaus fjarskipti snerta
fleiri svið tilverunnar, sjónvarpi og útvarpi er m.a. dreift með þráðlausum
fjarskiptakerfum og fjarskipti við farartæki eru þráðlaus. Staðsetningartækni
með gervitunglum, Internet hlutanna (e. Internet of Things, IoT) og
„Machine-To-Machine“ (M2M) byggja á þráðlausum fjarskiptum og verður því gerð
nokkur skil. Vonast er til að geta prófað nýja tækni, NB-IoT sem er að verða
hluti af LTE farsímakerfum en er gerð fyrir lítinn hraða og lítið afl.
Í námskeiðinu verður farið yfir undirstöður þráðlausra fjarskipta, sem eru m.a.
loftnet og bylgjuútbreiðsla, flutningslínur og hegðun rása á hátíðni. Lýst
verður eiginleikum kynslóða farsímatækninnar allt frá fyrstu kynslóð til þeirra
fimmtu. Má þar nefna mótunartækni QAM og fléttunartækni FDMA, CDMA, TDMA,
W-CDMA og OFDM(A) og loftnetatækni sem byggir á MIMO. Enn fremur verður fjallað
um tvírásaraðferðirnar TDD og FDD. Þjónustuþættir farsímatækni verða til
umfjöllunar eins og gagnatengingar, talþjónusta þ.á m. VoLTE.
Fjallað verður um staðlana fyrir Wi-Fi, IEEE 802.11, Blátönn og Zigbee sem
byggja á 802.15 staðlaröðinni og Z-Wave. Þráðlaus skynjaranet eru gjarnan byggð
á þessari tækni og verða þeim gerð stutt skil.
Til viðbótar verður tæpt á öðrum sviðum þráðlausra fjarskipta eins og stafrænum
þráðlausum sendingum sjónvarps með DVB-T og DVB-S tækni og lítillega fjallað um
fjarskipti um gervitungl og staðsetningarækni með gervitunglum.
Kennslan mun að mestu fara fram á fyrirlestra- og umræðuformi Unnin verða fjögur verkefni þar sem
nemendur skrifa m.a. greinar um valið efni og halda stutta fyrirlestra um það.
Hæfniviðmið:
Eftir þetta námskeið skulu nemendur m.a. geta:
- lýst grundvallaratriðum þráðlausra neta
- lýst takmörkunum þráðlausra fjarskipta
- geta reiknað afláætlun radíóhlekks (e. link budget)
- gert grein fyrir misjöfnum eiginleikum tíðnisviða
- gert grein fyrir verkun fimm kynslóða farsímatækninngar
- lýst þjónustuþáttum farsímaneta og kröfum þeirra til netbjarga
- gert grein fyrir framtíðarþróun í þráðlausum fjarskiptum
- tekið þátt í skipulagningu, hönnun og rekstri þráðlausra fjarskiptakerfa
- tekist á hendur frekara nám í fjarskiptum
- Lærer: Sæmundur E Þorsteinsson