Upplýsingar um námskeið

Staða innan námsleiða

Skyldunámskeið innan klínískrar námsleiðar í meistaranámi í hjúkrunarfræði

Skyldunámskeið í viðbótardiplómanámi í sérgreinum hjúkrunar (geð-, skurð- og svæfingahjúkrun);

Valnámskeið í rannsóknartengdu meistaranámi

Valnámskeið í meistaranámi í lýðheilsuvísindum

 

Forkröfur: BS próf í hjúkrunarfræði, sjá einnig Kennsluskrá HÍ.

Kennslustofur

Fyrirlestrar og umræðutímar: Eirberg við Eiríksgötu. Samdægurs má sjá stofunúmer á skjá í anddyri Eirbergs.

Verkleg kennsla og Hermann: kjallari Eirbergs

Kennarar

Dr. Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir (ÞKÞ), lektor, umsjónarkennari

Greniborg við bráðamóttökuna LSH Fossvogi / Eirberg 3. hæð,

Viðtalstímar eftir samkomulagi, sími 543 8218 / 697 48 36

thordist@hi.is   

 

Aðrir kennarar – óstaðfest

ÁG   Ásdís Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur

HRM   Helga Rósa Másdóttir, hjúkrunarfræðingur, MN

HÓ       Hrefna Ólafsdóttir, félagsráðgjafi, PhD

SSJ       Sara S. Jónsdóttir, deildarlæknir

IS         Ingibjörg Sigurþórsdóttir, hjúkrunarfræðingur, MS

JMÓ     Jóna Margrét Ólafsdóttir, félagsráðgjafi MS, doktorsnemi

MEK    Marianne Elisabet Klinke, MS, doktorsnemi í hjúkrunarfræði

MH      Magnús Haraldsson, geðlæknir

SI         Sylvía Ingibergsdóttir, hjúkrunarfræðingur, MS; sylviai@landspitali.is

ÞJ         Þorsteinn Jónsson, sérfræðingur í gjörgæsluhjúkrun, MS, aðjúnkt; thorsj@hi.is

 

Kennslusýn í námskeiðinu

Er hægt að skilja á milli líkama og sálar? Líkamlegrar líðanar og andlegrar líðanar? Tengjast einkenni líðan?

Í námskeiðinu eru viðfangsefnin viðurkenndar aðferðir við mat á andlegri og líkamlegri líðan skjólstæðinga og er markmiðið að nemendur nýti þessar aðferðir ávallt í námi og starfi. Í námskeiðinu er unnið annars vegar með þekkingu og hins vegar leikni nemenda sem verðandi sérfræðinga í hjúkrun.  Þannig er stefnan að efla ykkur sem hjúkrunarfræðinga í að vera þeir sem vita hvernig á að meta og bregðast við, vita hvaða viðbrögð eru viðeigandi og rétt, og í þriðja lagi að framkvæma mat á skjólstæðingum án þess að taka um það meðvitaða ákvörðun eða hugsa um það sérstaklega. Þannig er markmið námskeiðsins að efla faglega framkomu ykkar, hugsun og framkvæmdir.

Nemendur eru hvattir til að leggja ávallt gagnrýnið mat á upplýsingar og að setja efni í samhengi bæði innan námskeiðs og á þeirra náms- og starfsgrundvelli. Þannig eru nemendur hvattir til að tileinka sér og beita gagnrýnni hugsun í námi og starfi, nýta sér sérþekkingu kennara námskeiðsins og þiggja leiðbeiningu og ráðgjöf þeirra. Í námskeiðinu er stefnt að því að skapa góðar forsendur og umgjörð fyrir nemendur til að tileinka sér námsefnið og efla klíníska hæfni á árangursríkan hátt.

Lögð er áhersla á virka þátttöku nemenda, til dæmis með samræðum milli nemenda og kennara í fyrirlestrartímum og umræðutímum, verklegri kennslu og herminámi auk klínísks náms. 

Rík krafa er gerð til nemenda og kennara um gagnkvæma virðingu og aga í námskeiðinu. Í því felst virðing fyrir tíma, stundvísi, athygli í kennslutímum og að skilafrestur sé virtur af báðum aðilum. Ef spurningar vakna eða við önnur tilefni má hafa samband við umsjónarkennara með tölvupósti eða í síma, eða koma við á skrifstofu minni í Greniborg eða Eirbergi. Í því markmiði að efla og bæta gæði námskeiðsins er sérstaklega óskað eftir þátttöku nemenda í kennslukönnunum Háskólans, bæði við miðannarmat og eftir lok námskeiðs.

Að loknu námskeiði ættu nemendur að hafa aukið hæfni sína til frekara náms og starfs sem sérfræðingar í hjúkrun, ræktað hjá sér áhuga á efninu, og vera betur í stakk búnir að taka ábyrgð í námi og starfi.

Hæfniviðmið

  1. Nemendur sýni djúpstæða þekkingu á klínískum einkennum mismunandi sjúkdóma og afbrigða þeirra
  2. Nemendur sýni verulega færni við mat á klínískum einkennum skjólstæðinga, bæði líkamlegum og sálfélagslegum einkennum
  3. Nemendur hafi tileinkað sér og geti beitt gagnreyndum aðferðum við sálfélagslegt mat á skjólstæðingum
  4. Nemendur hafi tileinkað sér og geti beitt gagnreyndum og viðeigandi vinnubrögðum við líkamsskoðun og geti á skýran og skilmerkilegan hátt miðlað þeirri þekkingu til annarra heilbrigðisstarfsmanna
  5. Nemendur geti greint frávik, skráð og túlkað niðurstöður allsherjar heilsufarsmats og miðlað þeim niðurstöðum til annarra heilbrigðisstarfsmanna.

Námskeiðslýsing

Tilgangur námskeiðsins er að efla gagnreynda klíníska þekkingu og færni í að meta líkamlega, sálræna og félagslega líðan skjólstæðinga.

Sálfélagslegt mat

Við kennslu á gagnreyndu og klínísku sálfélagslegu mati verður lögð áhersla á ítarlegar og kerfisbundnar aðferðir við mat á sálrænni líðan og félagslegum aðstæðum sjúklinga á öllum aldri.

Markmið fyrirlestra og verknáms er að nemendur kynnist mismunandi aðferðum við sálfélagslegt mat, að þeir kynnist einkennum um bæði frávik og eflandi þætti, framkvæmd kerfisbundins sálfélagslegs mats og fái hugmyndir að úrlausnum sálfélagslegra vandamála.

Nemendur eiga að kynna sér mismunandi klínískar gagnasöfnunaraðferðir og þekkta sálfélagslega þætti sem geta haft áhrif á heilbrigði mismunandi sjúklingahópa.

Nemendur skulu tengja efni námskeiðsins við eigin sérsvið eftir því sem við verður komið.

Námið byggir á fyrirlestrum, verknámi og klínískum verkefnum. Í verknámi þjálfar nemandi og skerpir þá þekkingu sem hann hefur öðlast í bóklegu námi og tengir við raunverulegt ástand og aðstæður sjúklinga.

Námsmarkmið

  1. Nemendur hafi tileinkað sér mismunandi aðferðir við sálfélagslegt mat.
  2. Nemendur geti skráð og túlkað niðurstöður sálfélagslegs mats.
  3. Nemendur geti greint frávik í heilsufarsskoðun og unnið út frá þeim.

Námsþættir

Kerfisbundið mat á sálrænni líðan og félagslegum aðstæðum

Einkenni um vanlíðan

Félagslegir áhættuþættir

 

Fyrirkomulag kennslu í sálfélagslegu mati

Fyrirlestrar

Sérfræðingar kynna sérhæfðar aðferðir við mat á sálfélagslegri líðan. Lögð verður áhersla á mismunandi klínískar aðferðir við að meta sálfélagslega líðan auk helstu einkenna um frávik. Nemendur lesa námsefni fyrir tíma, skrifa lestrardagbók og senda fyrirlesurum spurningu úr efninu.

Klínískt nám á geðdeildum

Nemendur verja 1,5 degi á geðsviði, hálfri vakt á bráðamóttöku geðdeildar og heilli vakt á deild. Á þessum tíma vinna þeir klínískt verkefni (Verkefni A).

Nákvæmur tímarammi/lotur fyrir klíník á deildum verður aðgengilegt á námsvef fyrir fyrsta fyrirlestur. Klíník fer fram á tímabilinu 1. september til 29. september.

Nemendur sem hafa ekki verið nemendur á Landspítala áður þurfa að hafa samband við Arnheiði Sigurðardóttur vegna skráningu inn í Sögukerfi og annan aðgang að nemakerfum LSH, fyrir upphaf verknáms.

Umræðutími

Eftir að klínísku námi á geðdeildum lýkur mæta nemendur í umræðutíma. Hver og einn kynnir sjúkratilfelli úr Verkefni B fyrir samnemendum sínum (10 mín) auk þess sem tækifæri gefst til að ræða reynslu sína á deildum. Nemendum er skipt í hópa fyrir umræðutíma og mun kennari stýra umræðum.

Umsjón: Þórdís K. Þorsteinsdóttir og Sylvía Ingibergsdóttir.

 

 

Líkamsmat

Áhersla verður lögð á ítarlega, kerfisbundna heilsufarsskoðun sjúklinga á öllum aldri (Review of Systems). Lögð er áhersla á að þekkja frávik við heilsufarsskoðun s.s. einkenni, orsakir og afleiðingu sjúkdómsástands. Nemendur skulu tengja efni námskeiðsins við eigin sérsvið eftir því sem við verður komið og í verklegri kennslu verður lögð áhersla á að þekking og reynsla hvers og eins nema nýtist samnemendum.

Námið byggir að miklu leyti á sjálfsnámi með lestri kennslubókar, hlustun á fyrirlestra á námsvef, skoðun myndbanda, vefsíðna og DVD mynda auk æfinga með samnemendum í verknámsstofu og í hermi. Einnig fer fram klínískt nám á deild þar sem nemandi þjálfar og skerpir þá þekkingu sem hann hefur öðlast í bóklegu og verklegu námi og tengir við raunverulegt ástand og aðstæður sjúklinga.

Námsmarkmið

  1. Nemendur hafi tileinkað sér viðeigandi vinnubrögð við líkamsskoðun og geti miðlað þeirri þekkingu.
  2. Nemendur geti á kerfisbundinn hátt skráð og túlkað niðurstöður allsherjar heilsufarsmats.
  3. Nemendur geti greint frávik í heilsufari og unnið út frá þeim.

 

Námsþættir

Yfirlit heilsufarsskoðunar og hagnýting námsefnis.

Líkamsskoðun frá hvirfli til ilja, almenn og sérhæfð (afmörkuð); næringarástand, verkjamat, o.fl.

 

Fyrirkomulag kennslu í líkamsmati

Fyrirlestur/umræðutími/myndbönd

Eins og að framan greinir er námskeiðið að stórum hluta byggt á sjálfsnámi nemenda. Rík krafa er gerð á að nemendur viði að sér þekkingu frá mismunandi miðlum en einnig er ætlast til að nemendur lesi kennslubókina sjálfir út frá þeim lykilþáttum sem eru aðgengilegir á vefsvæði námskeiðsins.

Þann 29. sept. kl: 15.00-18.10  verður framsaga kennara og umræðutími (skyldumæting). Til að undirbúa nemendur fyrir þennan tíma verða spurningar sendar til þeirra fyrirfram. Mikilvægt er að nemendur taki virkan þátt í umræðum og séu vel undirbúnir.

Ætlast er til að nemendur horfi á myndbandsbúta um líkamsmat, sem verða aðgengilegir á námsvef námskeiðsins.

Nemendur horfa á mynddisk um allsherjar heilsufarsskoðun saman í kennslustofu þann 30. september klukkan 11.40-14.00.

Herminám

Nemendum í námskeiðinu verður skipt upp í hópa og fær hver hópur u.þ.b. 3 klst. þjálfun í herminámi. Stuðst verður við hátæknisjúklinginn Hermann og leysa nemendur verkefni með aðstoð hans.

Verknámsstofa

Í verklegum tíma (4 klst) í verknámsstofu munu nemendur, tveir til þrír saman í hóp, hafa framsögu um rétt handbrögð við framkvæmd afmarkaðra efnisþátta líkamsmats. Á þann hátt verður farið yfir allsherjar heilsufarsskoðun (Head to Toe Assessment). Kennarar verða á staðnum til stuðnings við nemendur. Ath. skyldumæting!

Klínískt nám á sómatískum deildum

Nemandi fylgir lækni við skoðun sjúklinga, hálfa til eina vakt. Hver nemandi skoðar tvo sjúklinga undir leiðsögn umsjónarlæknis og fjóra aðra sjúklinga á eigin vegum en í samráði við umsjónarlækni, alls sex sjúklinga. Nemandi heldur dagbók um sögu sjúklinga og skoðanir á þeim og ræðir niðurstöðurnar við viðkomandi umsjónarlækni auk þess að skila skriflega niðurstöðum um skoðun tveggja sjúklinga (verkefni D). Hluti sjúklinganna eiga að vera á sérsviði nemandans.

Umsjón: NN

 

Lesefni

Kennslubók

Bickley, L.S. (2012). Bates' Guide to Physical Examination and History Taking (11. útg.).

Lippincott Williams & Wilkins. (Eða sambærileg bók)

Þorsteinn Jónsson Bráðakverið, XXXX

 

Greinar

Carlat, D.J. (1998). The psychiatric review of symptoms: a screening tool for family physicians. Am Fam Physician. Nov 1;58(7):1617-24.  http://www.aafp.org/afp/1998/1101/p1617.html

Celik G, Annagür BB, Yılmaz M, Kara F. (2012). Findings of multidimensional instruments for determining psychopathology in diabetic and non-diabetic hemodialysis patients. Int J Clin Exp Med.5(4):346-54. http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC3443895/

Koita J, Riggio S, Jagoda A. (2010) The mental status examination in emergency practice. Emerg Med Clin North Am. Aug;28(3):439-51. http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/20709237

Auk þessa: Lesefni frá kennurum – tilkynnt síðar

 

Dagatal - tímaáætlun

Dagskrá kennslustunda (athugið stofunúmer á skjá í anddyri Eirbergs)

1.sept               10.00-12.20    Mat á andlegri heilsu – geðmat (3F, SI)

8. sept.             10.00-11.30    Einkenni og mat á geðrofssjúkdómum (MH)

15. sept.           10.00-11.30    Narratív upplýsingasöfnun - mat (HÓ)

15. sept.           11.40-13.10    Sálfélagsfræði vímuefnasjúkdóma – mat og einkenni (JMÓ)

22. sept.           10.00-11.30    Sálfélagsfræði í alvarlegum veikindum (ÞKÞ)

29. sept.           15.00-18.10    Hjúkrun og líkamsmat (fyrirlestur, umræður) (ÞJ)

30. sept.           11.40-14.00    DVD mynd um líkamsmat (ÞJ)

6. okt.              10.50-14.00    Verknámsstofa (IS, MK, ÞKÞ)

 

 

 

Verklegt nám á geðdeild: 1½ vakt á tímabilinu 1. september til 29. september.

Verklegt nám á lyf- eða handlæknisdeild: ½ til 1 vakt á tímabilinu 1. október til 20. nóvember.

Umræðutími: 2 klst 29. september (sjá að neðan).

Verknámstími í Hermanni, 3 kennslustundir (sjá að neðan).

 

Dagskrá umræðutíma (sálfélagslegt mat)

Umræðutímar um klínískt nám á geðdeild (5 hópar, 2 kennslustundir hver, 6-7 í hóp)

29. sept.           Hópur A                       10.00-11.30     (Sylvía)

                        Hópur B                       10.00-11.30     (Þórdís)

                        Hópur C                       11.40-13.10     (Sylvía)

                        Hópur D                       11.40-13.10     (Þórdís)

Hópur E                       11.40-13.10     (Sylvía,)

Dagskrá hermiþjálfunar (Hermann)

Hermiþjálfun (5-6 í hverjum hópi, 6 hópar, 3 kennslustundir) (ÁG, RB)

6. okt.              Hópur 1                       08.20-10.40

6. okt.              Hópur 2                       14.10-16.30

6. okt.              Hópur 3                       16.40-19.00

7. okt.              Hópur 4                       11.40-14.00

7. okt.             Hópur 5                       14.10-16.30

NN. okt.          Hópur 6                       óákv

 

Skil verkefna – skilað rafrænt

Verkefni A: 1 viku eftir lok verknáms á geðdeild

Verkefni B: Samtímis umræðutíma eftir lok verknáms á geðdeild

Verkefni C: Í tíma í verknámsstofu – skil á jafningjamati 15. október

Verkefni D: 30. nóvember – skil á jafningjamati 15. desember

Verkefni E: Fyrir upphaf hvers fyrirlesturs (spurning) og lokaskil lestrardagbókar 6. október

 

Námsmat

Verkefni A 30% Greiningarviðtal og geðkvarðar: Geðmat framkvæmt á geðdeild.

Verkefni B 10%Sálfélagsleg einkenni skjólstæðinga: Frammistaða á umræðufundi ásamt kynningu á einkennamati hjá einum skjólstæðingi og samanburður við fræðilegar heimildir.

Verkefni C 15% Hópverkefni um afmarkaðan þátt líkamsmats: Kynning á afmörkuðum þætti líkamsmats fyrir samnemendum í verknámsstofu.

Verkefni D 30% Dagbók og heilsufarsskoðun sjúklinga á deild: Skráning og framkvæmd ítarlegrar heilsufarsskoðunar .

Verkefni E 15% Lestardagbók: Nemandi skráir það markverðasta úr lesefni hvers fyrirlesturs og skilar inn spurningu til fyrirlesara fyrir upphaf tíma.

 

Nemandi verður að fá lágmarkseinkunn (6,0) í öllum liðum námsmatsins til að ljúka námskeiðinu.

 

Verkefnum er skilað á námskeiðsvef í Uglu til viðkomandi kennara.

Við yfirferð verkefna verða notaðir matskvarðar sem kynntir verða við fyrirlagningu verkefna.

Mætingarskylda

Gert er ráð fyrir 80% mætingu í fyrirlestra og 100% í umræðutíma og verklega kennslu (Hermann, Verknámsstofa, klínískt nám).

Standist nemandi ekki kröfur um mætingu verður dregið frá námskeiðseinkunn. Geti nemandi ekki mætt í fyrirlestur/umræðutíma af óviðráðanlegum ástæðum getur hann sent umsjónarkennara póst þess efnis og mun hann meta hvort ástæða sé til að heimila nemanda að senda inn skriflega umfjöllun um efni tímans og jafngildir hún mætingu. Reiknað er með virkri þátttöku nemenda í umræðutímum og verklegri kennslu.

 

Leiðbeiningar um frágang á ritverkum

Í hjúkrunarfræðideild liggja fyrir almennar leiðbeiningar um verkefni sem nemendur eru beðnir um að kynna sér. Þær má finna á þessari vefslóð (einnig í Uglunni undir verkefnum): http://www.hi.is/sites/default/files/oldSchool/Lei%C3%B0beiningar%20vi%C3%B0%20verkefnavinnu%20%C3%AD%20hj%C3%BAkrunarfr%C3%A6%C3%B0ideild.pdf

Ætlast er til að leiðbeiningum bandarísku sálfræðisamtakanna (APA) sé fylgt við frágang þeirra (sjá t.d. leiðbeiningar í Tímariti hjúkrunarfræðinga og Gagnfræðakverinu). Að öðru leyti verða kröfur kynntar er verkefnin verða lögð fyrir.

Reglur námsnefndar um skil á verkefnum:

Í hjúkrunarfræðideild er þess vænst að verkefnum sé skilað á þeim tíma (eða fyrr) sem tilgreindur er í námslýsingu.

Dregið er frá einkunn berist verkefni of seint sem hér segir:

Frádráttur af heildareinkunn verkefnis 0,1 fyrir fyrsta vanskiladag og 0,3 daglega þar á eftir í eina viku. Ekki er tekið á móti verkefnum að liðinni viku frá skilafresti og telst nemandi þá fallinn í námskeiðinu. Nemendur verða að skila vottorði komi til veikinda.

Ritstuldur

Athygli nemenda er vakin á því að ritstuldur er litinn alvarlegum augum og ef nemandi verður uppvís af ritstuldi þá er það tilkynnt til deildarforseta og getur jafnframt leitt til þess að nemandinn fái 0,0 fyrir verkefnið og fall í námskeiðinu. Ef um endurtekið brot eða alvarlegt brot er að ræða þá getur nemandanum verið vísað tímabundið eða að fullu úr Háskóla Íslands. Ritstuldur felst meðal annars í því að texti sem annar hefur skrifað er notaður orðrétt án þess að nota beina tilvitnun, að texti sem annar hefur skrifað er notaður en einu og einu orði er breytt (ekki umorðað) eða að texti sem annar hefur skrifað er umorðaður en heimildar ekki getið. Þegar texti er þýddur þarf að nota beina tilvitnun (nema ef textinn hefur verið umorðaður) annars flokkast það sem ritstuldur. Dæmi um vefsíður með góðum upplýsingum um ritstuld (plagiarism): http://www.academicintegrity.uoguelph.ca/

Lýsing á verkefnum

Verkefni A: Greiningarviðtal og geðkvarðar 30%

Verkefnalýsing: Tilgangur og markmið verkefnis er að setja umfjöllun og aðferðir geðmats í

klínískt samhengi, kynna nemendur fyrir framkvæmd greiningarviðtals og þjálfa þá í

skráningu á greiningarviðtali og notkun tveggja geðkvarða.

 

Skýrsla um greiningarviðtal 20%

Nemandi tekur greiningarviðtal og skilar ítarlegri skýrslu um viðtalið. Í skýrslunni er stuðst

við ramma að greiningarviðtali skv. leiðbeiningum sem afhentar verða í upphafi klínísks

náms. Texti skýrslunnar þarf að vera gagnorður og skýr og að hámarki 3-4 blaðsíður.

Sérstaklega þarf að gæta að því að engar persónugreinanlegar upplýsingar séu í verkefninu. Ef

atriði koma fram sem geta bent til persónu einstaklingsins þá skal breyta þeim. Farið er eftir

almennum uppsetningarreglum í Gagnfræðakveri handa háskólanemum, miðað er við 12

punkta letur.

Rammi greiningarviðtals

I. Almennar upplýsingar, stutt kynning á sjúklingnum.

II. Aðdragandi/ástæða komu, aðalkvörtun, núverandi vandamál, tímabil, einkenni, bjargráð og meðferð.

III. Bakgrunnur/forsaga, geðsaga, gera skal grein fyrir sögu þess vanda sem sjúklingur er með frá upphafi, sem og öðrum vandamálum sem hann kann að hafa átt við að stríða. Heilsufarssaga, fjölskyldusaga og uppvaxtarsaga, náms, atvinnuferill og félagssaga.

IV. Geðskoðun, útlit, hegðun, tal, geðslag og tjáning tilfinninga. Veruleikafirring, skyntruflanir, hugsanir, hugsanaflæði, hugsanainnihald, áttun, minni, dómgreind, innsæi og hvatvísi.

V. Niðurstöður mælitækja, útkoma úr kvörðum og hvað niðurstöðurnar þýða.

VI. Hjúkrunargreiningar og læknisfræðilegar greiningar.

VII. Neyslusaga, hvaða efni, hve mikið og hve oft og hve lengi.

VIII. Samantekt og mat, hvaða vandamál hefur hann átt við og hve legni, í hverju felst núverandi kreppa, stuðningsnet og afstaða sjúklings til vandans.

IX. Áætlun, hvaða úrræði eru í boði fyrir sjúklinginn, þarf hann frekari greiningu og meðferð og hvert málinu var vísað.

 

Geðkvarðar 10% - MINI prófið sem hluti af greiningarviðtali ásamt niðurstöðu tveggja kvarða.

Nemandi leggur fyrir MINI próf í greiningarviðtali, auk þess að leggja tvo mismundandi geðkvarða fyrir sjúkling/sjúklinga á deild/bráðavakt geðdeildar undir handleiðslu.

Niðurstöður MINI prófs er skilað sem hluta af greiningarviðtali. Auk þess skal skila niðurstöðum úr kvörðum sem lagðir eru fyrir annan sjúkling ½-1 blaðsíða, þar sem stutt geðskoðun er studd með niðurstöðum kvarðanna.

Skiladagur verkefnisins er viku eftir að nemandi tekur greiningarviðtalið. Verkefninu er skilað til Sylvíu Ingibergsdóttir með tölvupósti: sylviai@landspitali.is .

 

Verkefni B: Sálfélagsleg einkenni skjólstæðinga 10%

Nemandi framkvæmir einkennamat með viðurkenndu mælitæki (ESAS, HADS, Distress-scale eða öðru) hjá skjólstæðingi (í verknámi eða við störf) og tengir við námsefni fyrirlestra. Nemandi leitar að að rannsóknarniðurstöðum um niðurstöður þessara mælitækis og ber samann við einkenni síns skjólstæðings. Leit að rannsóknagreinum fer fram á PubMed og CINAHL. Nemandi metur í stuttu máli niðurstöður rannsókna um þetta efni og hvernig einkenni hans skjólstæðings eru í samanburði, hvaða þýðingu þessi einkenni geta haft fyrir horfur og framtíð hans.

Markmiðið er að fá hugmynd um hvernig nýta má rannsóknarniðurstöðurnar í klínísku starfi.

Nemandi kynnir niðurstöður þessa samanburðar í umræðutíma og skilar verkefni til Þórdísar K. Þorsteinsdóttur (skilahólf á Uglu).

Nemandi skilar skriflegu verkefni (Hámark 2 bls):

  • Gerið grein fyrir og rökstyðjið val á mælitæki.
  • Hver er staða rannsókna um niðurstöður þessa mælitækis hjá svipuðum sjúklingahópum og þú valdir? (T.d. fjöldi rannsókna, stærð (fjöldi þáttakenda), hvar framkvæmdar, eigindlegar/megindlegar, íhlutandi rannsóknir, hjúkrunarfræði, sálfræði? o.s.frv.)
  • Hvaða þýðingu geta einkennin sem koma fram hjá þínum skjólstæðingi haft á horfur hans og framtíð, og af hverju? Lýsið í stuttu máli rannsóknaniðurstöðum sem benda til áhrifa á líf og líðan svipaðra sjúklingahópa. Hvernig gagnast notkun einkennamats í daglegu starfi á deild? Hvert væri næsta skref til að bæta hjúkrun einstaklinga með þessi einkenni?

Verkefni C: Hópverkefni um afmarkaðan þátt líkamsmats 15%

Hver hópur (2-3 nemendur) undirbúa 5-10 mínútna framsögu um afmarkaða þætti líkamsmats og kenna þannig samnemendum sínum. Nemendur með svipaðan bakgrunn vinna saman og fá úthlutað verkefni tengt þeirra sérsviði í hjúkrun. Nemendur hafa frjálsar hendur við útfærslu á framsögunni/kennslunni (leikur, myndband, notkun dúkku og svo framvegis).

Í framsögunni þarf meðal annars að koma fram: Viðurkenndar aðferðir við líkamsmat þessa kerfis, nálgun, tilgangur, markmið, tenging við líffæra- og lífeðlisfræði, tenging við huglæga þætti, lykilþætti í heilsufarssögu, hagnýting, einkennamat (viðeigandi val), tenging við sérgrein nemenda (t.d. bráða, svæfing, skurð o.fl.).

 

Nemendur (hópar) fá úthlutað öðrum hópi til að meta frammistöðu samnemenda samkvæmt matskvarða og gildir þetta mat 10% af einkunn Verkefnis C (1,5% af lokaeinkunn).

 

Verkefni D: Dagbók og heilsufarsskoðun sjúklinga á deild 30%

Nemandi heldur dagbók um sögu og skoðun 6 sjúklinga með því að punkta hjá sér niðurstöður heilsufarsskoðunar hvers sjúklings. Nemandi skrifar kerfisbundna heilsufarsskoðun tveggja sjúklinga nákvæmlega upp og leggur áherslu á hið sérhæfða líkamsmat sem tengist undirliggjandi sjúkdómi/einkennum sjúklings (lýsing á viðkomandi kerfi, niðurstöður skoðunar og rannsókna). Hjá þessum 2 sjúklingum gerir nemandi viðeigandi sálfélagslegt einkennamat samkvæmt viðurkenndu mælitæki (t.d. sbr. verkefni A eða B). Umsjónarlæknir les yfir og staðfestir réttmæti hverrar skoðunar, þ.e. að rétt sé farið með og að ekkert vanti.

 

Verkefninu er skilað til Þórdísar sem sendir það til samnemanda sem metur það samkvæmt matskvarða, gildir þetta jafningjamat 10% af einkunn Verkefnis D (3% af lokaeinkunn). Nemendur skila verkefni samnemenda og jafningjamati til Þórdísar K. Þorsteinsdóttur sem gefur heildareinkunn verkefnis.

 

Skil á verkefni 30. nóvember. Skil á jafningjamati 15. desember.

 

Verkefni E: Lestrardagbók 15%

Nemandi les námsefnið fyrir hvern fyrirlestur og skráir í lestrardagbók eftir sérstökum leiðbeiningum og fyrirmælum sem varpað er upp fyrir efni hverrar viku, um það bil 1-2 bls. í hvert skipti.

Nemandi varpar fram spurningu með tengingu við hans klíníska hversdag út frá lesefninu til kennara sem getur þá tekið efnið fyrir í fyrirlestrartíma. Nemandi skilar inn spurningu í að minnsta kosti 5 tilfellum af 6.

Námsmat byggir á framsetningu lestardagbókar (0-15%) og skilum efnislegra spurninga til fyrirlesara (staðið/fallið). Lestardagbók er skilað til Þórdísar K. Þorsteinsdóttur.