Námskeiðinu er ætlað að efla færni nemenda í að undirbúa og skipuleggja viðburði á faglegan hátt með aðferðum og leiðum verkefnastjórnunar. Áhersla er á samvinnu og verkefnavinnu með markvissum hætti og nemendur ættu því að búa að aukinni færni fyrir önnur námskeið í háskólanámi, vinnumarkað og félagsstörf hvers konar. Námskeiðið er grunnnámskeið í tómstunda- og félagsmálafræði og er ætlað að mæta síaukinni kröfu um færni í viðburða- og verkefnastjórn á starfsvettvangi þeirra. Það er einnig opið öðrum nemendum við Háskóla Íslands sem valnámskeið.

Viðburðastjórnun er meginviðfangsefni námskeiðsins með aðferðarfræði verkefnastjórnunar. Áhersla er lögð á undirbúning, greiningar, áætlanir, framkvæmd og eftirvinnslu viðburða s.s. á sviði tómstunda, frítíma og menningar. Rýnt er í viðburði eins og fundi, ráðstefnur, tónleika, útihátíðir, íþróttamót, merkisdaga mannsævinnar og fasta hátíðisdaga. Fjallað er um lög, reglur og öryggisatriði. Skoðuð eru tengsl frístunda, tómstunda og ferðaþjónustu, sem og uppeldisleg- og samfélagsleg gildi viðburða og efnahagsleg áhrif þeirra. 

Í námskeiðinu munu nemendur fá tækifæri til að vinna með aðferðum verkefnastjórnunar að verkefnum, bæði einstaklingsverkefnum og hópverkefnum, m.a. að undirbúa, framkvæma og meta eigin viðburði. Nemendur fá einnig tækifæri til að kynnast viðburða- og verkefnastjórnun á vettvangi frá gestafyrirlesurum og í vettvangsferðum.

Námskeiðið er kennt sameiginlega fyrir stað- og fjarnema. Skyldumæting er 80% fyrir staðnema og skyldumæting í staðlotur fyrir fjarnema auk þess sem fjarnemar mæta í sérstaka fjarnámstíma í staðlotum.

Kennsla byggir á fyrirlestrum, umræðum, verkefnavinnu og vettvangsferðum. Gæði náms fyrir hvern og einn nemanda felst í góðum undirbúningi, lestri og virkni í tímum og verkefnavinnu. 

Ég hlakka til námskeiðsins með ykkur.