Hegðun og tilfinningar barna: Áskoranir og úrræði

Vor 2019

SKF017F

Birt með fyrirvara um breytingar

 

Umsjón: Dr. Margrét Sigmarsdóttir (MS), lektor

Kennarar: Alda Ingibergsdóttir (AI), sálfræðingur og doktorsnemi og Bryndís Jóna Jónsdóttir (BJJ), námsráðgjafi og aðjúnkt.

Gestafyrirlesari: Ingibjörg Markúsdóttir, sálfræðingur og teymisstjóri MST, Barnaverndarstofu.

Vefsvæði námskeiðs er á Moodle og kennarar svara fyrirspurnum nemenda þar eins fljótt og þeir geta á virkum dögum.

 

 

Forkröfur: Nemendur hafi aflað sér grunnþekkingar á helstu hugtökum og sjónarhornum þroskasálfræði eða félagsvísinda á námsferli sínum. Einnig er æskilegt að hafa reynslu af vinnu með börnum.

 

Megintilgangur

Að gefa þátttakendum kost á að kynnast völdum þáttum, bæði fræðilegum og hagnýtum, sem auðvelda almennum kennurum og sérkennurum að skilja, meta og bregðast við þörfum nemenda sem eiga við hegðunar- og/eða tilfinningavanda að etja. Fjallað verður um aðferðir við skimun og mat, áhrifaþætti og algengi mismunandi hegðunar- og/eða tilfinningalegra erfiðleika, s.s. þunglyndis og kvíða. Einnig verður fjallað um hegðunar- og/eða tilfinningalega erfiðleika nemenda með aðrar greiningar, s.s. athyglisbrest og ofvirkni. Sérstök áhersla er á að auka færni þátttakenda í að aðlaga skólastarf og skólasamfélag betur að þörfum nemenda með hegðunar- og/eða tilfinningalega erfiðleika og veita kennurum og skólastjórnendum ráð um hvernig unnt er að gera slíkt og fjarlægja hindranir sem útiloka og einangra nemendur með slíkan vanda.

 

Að námskeiðinu loknu eiga nemendur að:

 • Þekkja helstu hegðunar- og tilfinningaerfiðleika barna og unglinga. 
 • Þekkja helstu kenningar um hegðunar- og tilfinningaerfiðleika barna og unglinga og úrræði innan skólasamfélagsins eða í samstarfi við aðra aðila sem koma að velferð barnsins/unglingsins svo sem við fjölskylduna, félagsmálayfirvöld og heilbrigðiskerfið.
 • Þekkja til aðferða sem hægt er að beita innan skólasamfélagsins til að fyrirbyggja hegðunar- og tilfinningaerfiðleika nemenda.
 • Þekkja til aðferða við að aðlaga og breyta kennsluháttum og skipulagi í bekk, skóla og skólasamfélagi sem stuðli að því að nemendur með hegðunar- og tilfinningaerfiðleika þrífist í námi og samveru í hópi jafnaldra sinna.
 • Þekkja aðferðir við virknimat (functional behavior assessment), s.s. viðtöl við kennara, nemendur og foreldra, beina athugun á hegðun og myndræna uppsetningu á gögnum um hegðun eða færni fyrir og eftir inngrip.
 • Geta búið til einstaklingsmiðaða stuðningsáætlun með hliðsjón af virknimati, með aðferðum til að fyrirbyggja erfiða hegðun, kenna viðeigandi hegðun í stað hinnar erfiðu og festa hana í sessi með hvetjandi aðferðum.
 • Þekkja til aðferða til að efla félagsfærni og sjálfstæð vinnubrögð nemenda með hegðunar- og tilfinningalega erfiðleika.

 

Skipulag kennslu og vinnulag

Námskeiðið er með fjarnámssniði. Gert er ráð fyrir því að nemendur mæti í a.m.k. tvær staðlotur á kennslutíma námskeiðsins og síðan eiga nemendur að kynna verkefni sín á próftímabilinu. Sjá nánar í kennsluáætlun.
Í staðlotum mun m.a. fara fram verkefnavinna hópa undir handleiðslu kennara, könnun og kynningar sem nemendur taka þátt í, auk fyrirlestra og umræðna.

Moodle er náms- og kennsluumhverfi námskeiðsins. Þangað verður sett inn allt efni sem snertir námskeiðið, umgjörð þess og innihald. Moodle verður ennfremur megin samskiptavefur kennara og nemenda, varðandi fyrirspurnir og annað.

Powerpoint-glærur, talglærur eða kennslubréf verða gerð aðgengileg á Moodle fyrir hvern kafla til umfjöllunar á námskeiðinu.

 

Námsmat og vægi

 • Verkefni í framkvæmd virknimats og stuðningsáætlunar. Gert er ráð fyrir að nemendur í námskeiðinu vinni verkefnið fjórir saman með leikskóla- eða grunnskólanemanda (eða jafnvel framhaldsskólanemanda).  Þannig þarf einn nemanna sem vinna saman að hafa „aðgang að“ nemanda með hegðunarerfiðleika til að beina virknimati og stuðningsáætlun að.  Sjá nánari lýsingu á framkvæmd og skilafresti fyrir einstaka þætti verkefnis í sérskjali.  Samstarfsfélagar í verkefni kynna niðurstöður saman og skila sameiginlegri lokaskýrslu.  Vægi: 55%.
  • Fræðilegur leiðarvísir um framkvæmd virknimats og stuðningsáætlunar. Þeir nemendur sem ekki hafa áhuga eða tök á að vinna verkefni á vettvangi vinna fræðilegan leiðarvísi um framkvæmd virknimats og stuðningsáætlunar fyrir nemanda með tiltekna erfiðleika með hliðsjón af rannsóknum á því sviði. Nemendur vinna saman þrír, kynna verkefni sitt og skila sameiginlegri ritgerð. Vægi: 55%
 • Könnun á þekkingu á virknimati og stuðningsáætlunum.  Lagt verður fyrir stutt könnunarpróf í staðlotu 2, með fjölvalsspurningum og spurningum sem kalla á stutt svör um virknimat og stuðningsáætlun.  Vægi: 5%
 • Heimildaritgerð þar sem nemendum er ætlað að dýpka þekkingu sína á einhverju þeirra sviða sem fjallað er um á námskeiðinu (þó skal huga að því að ekki sé skörun við umfjöllunarefni í verkefni um virknimat og stuðningsáætlun).  Ritgerðin er unnin í samvinnu þriggja nemenda. Sjá nánari lýsingu í sérskjali.  Nemendur skila ritgerð 10. maí. Vægi: 40%.

 

Lesefni felur í sér valda kafla úr eftirfarandi kennslubókum auk valdra greina sem eru á Moodle:

·       Kauffman, J.M. & Landrum, T.J. (2013).  Characteristics of emotional and behavioral disorders of children and youth (10. útgáfa).  Upper Saddle River, NJ:  Pearson.

Kaflar birtir í Moodle en bókin er auk þess til láns á bókasafni MVS.

 • Yell, M.L., Shriner, J.G., Meadows, N. & Drasgow, E.G. (2013). Evidence-based practices for educating students with emotional and behavioral disorders (2. útgáfa). Boston: Pearson.

  Fáanleg í bóksölu stúdenta í Stakkahlíð.