Markmið námskeiðsins er að kynna kenningar fjögurra helstu frumkvöðla félagsvísinda. Ástæðan er ekki sú að hjá þeim megi finna endanleg svör við spurningum félagsvísinda heldur sjáum við þar vaxa fram megin línur sem enn þann dag í dag leiðbeina okkur við skilning á möguleikum og vandamálum samfélaga. Nútímakenningar innan félagsvísinda sækja grunn sinn til klassískra kenninga og oft er þar verið að enduruppgötva eða umorða það sem frumkvöðlarnir höfðu lagt fram. Þeir sem telja sig ekki hafa þörf fyrir klassísku kenningarnar hafa líklega ekki skilið þær.

Fjallað verður um kenningar Marx, Durkheim, Weber og Mead með sérstöku tilliti til hugmynda þeirra um eðli þjóðfélagsvísinda, orsakir þjóðfélagsþróunar, stéttaskiptingu, eðli mannsins og skipan valdsins. Efnið er nálgast  sögulega þannig að frumkvöðlarnir eru staðsettir í atburðum og hreyfingum þeirra tíma. Kenningarnar eru einnig bornar saman til nánari skilnings á því sem er svipað og hvar ágreiningur er ljós. Loks verður reynt að benda á hvar og hvernig unnt er að beita kenningunum á viðfangsefni samtímans.

Í lok námskeiðsins er ætlast til að nemandi hafi lesið klassíska texta, kunni skil á meginhugtökum áður nefndra frumkvöðla og geti beitt þeim við greiningu á nútímaþjóðfélögum. Kennsla fer fram í fyrirlestrum og með umræðum.