Hæfniviðmið námskeiðsins

 

Að loknu námskeiði eiga nemendur að:

•    Geta útskýrt hlutverk samfélagsgreina í að efla þroska og hæfni nemenda til að takast á við líf og störf í lýðræðissamfélagi

•    Geta rökstutt gildi jákvæðra lífsviðhorfa, dygða og gildismats sem mikilvægs þáttar í heilbrigðri sjálfsvitund nemenda

•    Geta vegið og metið áhrif fyrirmynda og staðalímynda á mótun sjálfsmyndar nemenda

•    Geta sett sig í spor fólks með ólíkan bakgrunn og viðhorf, á ýmsum stöðum og tímum

•    Geta gert grein fyrir gildi þess að efla félagsþroska og borgaravitund, siðvit og virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum í skólastarfi

•    Geta fengist við samfélagsleg og siðferðileg málefni af mismunandi sjónarhólum í skólastarfi

•    Geta tekið þátt í samfélagsmálum á ábyrgan hátt og tekið þátt í rökræðu um siðferði

Vera færir um að skipuleggja og takast á við lífsleikni- og siðfræðikennslu í skólum.

 

Helstu viðfangsefni

 

Á námskeiðinu er fléttað saman lífsleikni og siðfræði. Fjallað verður um hlutverk samfélagsgreina í að efla þroska og hæfni nemenda til að takast á við líf og störf í lýðræðissamfélagi. Hugað verður að forsendum lífsleikni og siðfræði sem viðfangsefnum í skólastarfi, m.a. skoðað hvernig viðfangsefni  í lífsleikni og siðfræði geta eflt áræði, frumkvæði, ábyrgð, sjálfsaga og samkennd nemenda.

Á námskeiðinu fá nemendur tækifæri til að skoða hugmyndafræðilegar forsendur lífsleikninnar, hvernig hún tengist hugmyndum um félags- og tilfinningatengt nám. Hugað verður að því hvernig lífsleikni getur eflt félagsþroska og borgaravitund, siðvit og virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum.

Tengsl siðfræði og lífsleikni verða jafnframt skoðuð og fá nemendur tækifæri til að athuga og ræða siðræn gildi og siðferðileg viðfangsefni frá mismunandi sjónarhornum. Fjallað verður um nokkrar helstu kenningar og hugtök siðfræðinnar og fengist við að greina siðræn álitamál. Nemendur fá tækifæri til að taka þátt í siðfræðilegri umræðu af rökfestu, ábyrgð og virðingu. Nemendur kynnast jafnframt kennsluaðferðum leiklistar sem  forvarnartæki í lífsleiknikennslu og fjölbreyttum kennsluaðferðum við að undirbúa og stýra umræðu.

 

Vinnulag

 

 

Áhersla verður lögð á að þjálfa þátttakendur í þeirri færni sem þeir eiga að efla hjá eigin nemendum.  Námið fer fram með fyrirlestrum, umræðum, verkefnum, samvinnu og verklegum æfingum.