Markmið: Að nemendur öðlist þekkingu, yfirsýn og skilning á hugmyndafræði og rannsóknum á sviði fjölmenningarfræða; þekki helstu kenningar um stöðu, aðlögun, uppeldi og menntun einstaklinga, einkum barna og unglinga, í fjölmenningarlegu samfélagi; geti beitt hugtökum og aðferðum fjölmenningarfræða á agaðan hátt á starfsvettvangi sínum og í eigin rannsóknum; geti haft frumkvæði að rannsóknar- og þróunarverkefnum á sviðinu.

Viðfangsefni:   
Fjallað verður um rannsóknir á sviði fjölmenningarfræða á Íslandi og í öðrum löndum, fjölmenningu í sögulegu og alþjóðlegu samhengi, búferlaflutninga, stöðu minnihlutahópa og stöðu flóttafólks. Einnig verður fjallað um viðhorf og fordóma, svo og aðgerðir stjórnvalda, mannréttindi, jafnrétti og lýðræði. Þá verður rætt um uppeldi í fjölmenningarlegu samfélagi og rannsóknir á stöðu barna og unglinga sem málfarslegra, menningarlegra og trúarlegra minnihlutahópa. Verkefni eru vettvangstengd og nemendur kynnast eigindlegum rannsóknaraðferðum við söfnun gagna á vettvangi og úrvinnslu þeirra.