Í námskeiðinu er fjallað um áhættuhegðun unglinga og velferð þeirra. Rætt er um ýmsa uppeldislega, félagslega og sálfræðilega þætti sem tengjast styrkleikum ungmenna og áskorunum sem þeim mæta. Áhersla er um kenningar og rannsóknir á eftirfarandi sviðum í tengslum við unglingsárin: Líffræðilegar og félagslegar breytingar; margvíslegur sálfélagslegur þroski; sjálfsmynd; heilsa og líðan; vímuefni og afbrot; skólaganga, tómstundir og framtíðarmarkmið. Þá er fjallað um samskipti ungs fólks við nærumhverfi sitt, bæði augliti til auglitis og rafræn.

Verkefni í námskeiðinu hafa að markmiði að auka þekkingu og skilning nemenda á forvörnum ýmiss konar bæði á Íslandi og erlendis og því hvernig megi best styðja unglinga til sjálfseflingar, heilbrigðs lífstíls og lífsviðhorfa.

Lögð er áhersla á umræður í fyrirlestrum og að nemendur geti skoðað viðfangsefni frá mörgum hliðum og rökrætt um álitamál.