Innan fræðigreinarinnar fötlunarfræði er byggt á félagslegum skilningi á fötlun sem hafnar einhliða læknisfræðilegum áherslum. Þess í stað er athyglinni beint að félagslegum þáttum og manngerðum hindrunum í umhverfinu, s.s. fordómum og öðrum umhverfisþáttum sem skapa erfiðleika í lífi fatlaðs fólks. Í námskeiðinu er fjallað um rætur, upphaf og þróun fötlunarfræði sem fræðigreinar og helstu sjónarhorn innan hennar. Þá er fjallað um sögulega þróun í málaflokkum fatlaðs fólks og stöðu þess í samfélaginu fyrr og nú. Ennfremur er fjallað um þá hugmyndafræði sem hefur verið ríkjandi á hverjum tíma.  Sérstök áhersla verður á að tengja við, sögu, daglegt líf og reynslu fatlaðs fólks sem og lifshlaup fatlaðs fólks. Þá verða kynntar nýjar íslenskar rannsóknir innan fötlunarfræða og nýjar áherslur í þjónustu við fatlað fólk í búsetu-, atvinnu-, menntunar- og fjölskyldumálum. Ennfremur er sjónum beint að mannréttindabaráttu fatlaðs fólks og í því skyni fjallað um mannréttindasáttmála eins og Samning Sameinuðu þjóðanna um rétt fatlaðs fólks. Þá er lögð áhersla á að kynna fyrir nemendum hugtök eins og sjálfræði og sjálfsákvörðunarrétt í þjónustu við fatlað fólk. Lögð er áhersla á að tengja fræðilega umfjöllun við faglegt starf á vettvangi fatlaðs fólks.