Námskeiðslýsing:

Markmiðið með námskeiðinu er að kynna fyrir viðskiptafræðinemum helstu grunnatriði í vinnu­markaðs­­­fræðum (industrial/employee relations). Fjallað verður um hugtakið vinnumarkaðsfræði, kenningar um vinnumarkaðinn og samskipti aðila vinnumarkaðarins, stofnanauppbyggingu, hlutverk einstakra aðila á vinnumarkaði (verkalýðsfélög, atvinnurekendur og ríkisvald). Rakin verða megin­ein­kenni vinnumarkaða m.a. í Svíþjóð, USA, Japan, Ítalíu, Þýskalandi og Frakklandi. Fjallað um kjara­samn­inga (fyrirtækja- og vinnustaðasamninga, markaðslaunasamninga), vinnulöggjöf, verkföll og verkfalls­kenningar, atvinnulýðræði og þátttökustjórnun og hlutverk verkalýðsfélaga í nútíð og fortíð. Rætt verður um alþjóðavæðingu og áhrif hennar á evrópskan vinnumarkað sem og samruna vinnuafls í Evrópu, líkur á heildstæðum evrópskum vinnumarkaði og áhrif fjölþjóðlegra fyrirtæka (MNC's) á evrópskan vinnumarkað. Ennfremur verður rætt um tilkomu mannauðsstjórnunar (HRM). Samtímis verður lögð áhersla á umfjöllun um íslenskan vinnumarkað.

 

Hæfniviðmið:

Þekking nemenda er fólgin í því að þeir þekki vel til:

·       helstu kenninga og hugtaka innan vinnumarkaðsfræða

·       hafi vitneskju um þróun alþjóðlegs og íslensks vinnumarkaðar

·       einkenna íslensks vinnumarkaðar

Leikni nemenda er fólgin í að þeir geti:

·       beitt gagnrýnni hugsun og rökrætt helstu álitamál á íslenskum og alþjóðlegum vinnumarkaði

·       geti notað helstu kenningar innan vinnumarkaðsfræða til stuðnings við ákvarðanatöku

·       geti greint hvenær þörf er á frekari upplýsingum og hafi færni til að nýta þær á viðeigandi hátt

Hæfni nemenda er fólgin í að þeir geti:

·       túlkað, rökrætt og kynnt fræðileg og hagnýt viðfangsefni innan vinnumarkaðsfræða

·       verið virk í hópvinnu og einstaklingsvinnu að lausn verkefna í vinnumarkaðsfræðum

 

Kennsluaðferð: Kennsla byggir á gagnvirkum fyrirlestrum og virkri þátttöku nemenda í umræðum og verkefnavinnu í tímum.