Námskeiðið miðar að því að þátttakendur, sem þegar eru starfandi fagmenn á sviði grunnskólamenntunar, efli þekkingu sína og hæfni sem snýr að kenningum og rannsóknum á menntun, skólaþróun, námi og kennslu og umræðu um þær. Rík áhersla er lögð á tengsl við núverandi starf eða reynslu þátttakenda.

Það er 5 háskólaeiningar (ECTS), en ein slík eining er metin til 25 – 30 vinnustunda og því má ætla 125 til 150 vinnustundir fyrir þetta námskeið. Það stendur yfir frá 24. október til 25 nóvember 2017. Í námskeiðinu verður í upphafi lögð rík áhersla á að þátttakendur kynni þau álitamál sem þeir telja skipta mestu máli á grundvelli reynslu sinnar og tekur framhaldið mið af þessu eftir því sem við verður komið. Fjallað er bæði fræðilega og starfstengt (vettvangstengt) um þátt kennara í skólaþróun sem tekur mið af kenningum og rannsóknum á námi og kennslu. Annars vegar er lögð áhersla á umfjöllun um þær kenningar, hugmyndastefnur og rannsóknir sem þátttakendur þekkja úr eigin umhverfi og hins vegar á nýtt efni. Þeir lesa og ræða um álitamál og ólíka hugmyndafræðilega strauma, sem tengjast markmiðum og skipulagi grunnskóla og skólaþróun á þeim vettvangi.

 

Vinnulag á námskeiðinu felst í kynningum á fræðilegum og vettvangstengdum viðfangsefnum og gagnrýninni munnlegri og skriflegri umræðu í málstofum og verkefnum.

 

 

 

Námskeiðslýsing – Byggt er á fjórum meginþáttum

a)     Um menntarannsóknir og skólaþróun. Hugmyndir um menntarannsóknir og rannsóknadrifna skólaþróun á síðustu öld. Lesefni: Atli Harðarson (2016); Loftur Guttormsson (2008); Helgi Skúli Kjartansson (2008); Jón Torfi Jónasson (2008).

b)    Um árangur og erfiðleika, hvað gerist þegar reynt er að breyta skólum. Lesefni: Cuban (1993); Tyack, og Cuban (1995); Sahlberg (2016); Ingólfur Ásgeir Jóhannesson (2008a, 2008b).

c)    Um hlut kennara í skólaþróun. Lesefni: Walker & Soltis (2009).

d)    Um kenningar Stephens Kemmis og Peters Grootenboer um arkitektúr starfshátta (e. Practice architectures) og Vistfræði starfshátta. Lesefni: Lesefni: Kemmis, S. , Wilkinson, J., Edwards-Groves, C., Hardy, I., Grootenboer, P., Bristol, L. (2014). Changing Practices, Changing Education. Dordrect: Springer.

 

Hver fyrirlestur er um tveir kortersbútar sem birtast í Moodle.