Námskeiðslýsing:

Fjallað er um hvernig tölvusneiðmynd verður til, allt frá því hvernig dofnun röntgengeisla í vefjum sjúklinga er mæld, til þess hvernig mynd er reiknuð út frá þeim gögnum og birt á tölvuskjá. Einnig verður fjallað um gæði tölvusneiðmynda og þá meginþætti sem hafa áhrif á þau, bæði í gagnasöfnuninni og mynduppbyggingu, sem og mismunandi aðferðir við framsetningu myndgagna, t.d. þrívíddarmyndir. Fjallað er um framkvæmd tölvusneiðmyndarannsókna bæði hvað við kemur undirbúningi og meðhöndlun sjúkinga, og vali á tökugildum. Fjallað um notkun tölvusneiðmynda í sjúkdómsgreiningu, almennar ábendingar og sjúkdóma sem tengjast tölvusneiðmyndarannsóknum á helstu líffærakerfum.
Fjallað er um geislavarnir starfsmanna og sjúklinga við tölvusneiðmyndarannsóknir, mælingar á geislaskömmtum og mat á geislaálagi.

 

Hæfniviðmið:

Að nemendur

  • skilji hvernig sneiðmynd verður til úr mörgum dofnunarsniðum
  • þekki sögu og þróun tölvusneiðmyndatækninnar til dagsins í dag
  • geti gert grein fyrir helstu hlutum tölvusneiðmyndatækja og hlutverki hvers um sig
  • viti hvernig tölvsneiðmyndarannsóknir ganga fyrir sig
  • skilji grundvallaratriði þess hvenær tölvusneiðmyndarannsóknir koma að gagni við rannsóknir á einstökum líffærakerfum
  • skilji þær stærðir sem notaðar eru við mælingar á geislaálagi og geti tekið þátt í bestun rannsóknaraðferða